Tannlæknaþjónusta fatlaðra einstaklinga – Sjónarhorn tannlækna og tannlæknanema

LÁRA MARÝ LÁRUSDÓTTIR, TANNSMIÐUR, BS.
EVA GUÐRÚN SVEINSDÓTTIR, TANNLÆKNIR, MS, SÉRFRÆÐINGUR Í BARNATANNLÆKNINGUM, LEKTOR Í BARNATANNLÆKNINGUM, TANNLÆKNADEILD HÁSKÓLA ÍSLANDS.

 

NETFANG: laramary1998@gmail.com, TANNLÆKNABLAÐIÐ 2021; 39(2):: 37-41
doi: 10.33112/tann.39.2.4

ÁGRIP

Fötlun er margbreytileg og orsakir hennar margvíslegar. Með hugtakinu fötlun er átt við langvarandi skerðingar sem hafa áhrif á daglegt líf fólks. Heilbrigði tanna skiptir sköpum fyrir almenna heilsu og vellíðan, hvort sem fötlun er til staðar eða ekki. Flestir einstaklingar með fötlun eru í grunninn með jafnheilbrigðar tennur og hver annar, en tann- og munnsjúkdómar eru hinsvegar algengari í þeirra hópi af ýmsum ástæðum.
Tilgangur: Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf tannlækna og tannlæknanema hérlendis til þjónustu við einstaklinga með fötlun. Að auki var kannað hvort fyrrnefndir hópar hefðu áhuga á að sækja frekari fræðslu og þjálfun um veitingu slíkrar þjónustu.
Aðferðir: Notast var við megindlega þversniðsrannsókn með lýsandi tölfræði. Hentugleikaúrtak var notað við val á þátttakendum en úrtakið samanstóð af öllum tannlæknum skráðum í Tannlæknafélag Íslands (TFÍ) og öllum tannlæknanemum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands (THÍ) vorið 2021. Gagnasöfnun fór fram með rafrænum spurningalista. Úrvinnsla gagna var framkvæmd í reikniforritunum Microsoft Excel og SPSS og niðurstöðum lýst í texta, töflum og með myndum.
Niðurstöður: Alls luku 100 þátttakendur könnuninni. Fleiri konur, 59,0% (n = 59), tóku þátt en karlar, 41,0% (n = 41). Starfandi tannlæknar voru í miklum meirihluta, 75,0% (n = 75), en 25 tannlæknanemar tóku þátt (25%). Næstum allir starfandi tannlæknar, 97,3% (n = 73), sinntu einstaklingum með fötlun í starfi sínu, en einungis 16,0% hafði fengið sérstaka þjálfun við meðferð þeirra. Þátttakendur voru áhugasamir um að auka möguleika á kennslu og þjálfun við meðferð einstaklinga með fötlun.
Ályktun: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að kennslu og þjálfun í tannlæknaþjónustu fyrir fatlaða einstaklinga sé ábótavant hér á landi. Flestir tannlæknar sinna einstaklingum með fötlun, sem sumir hverjir hafa aukna áhættuþætti m.t.t. tannheilsu, og því brýnt að tannlæknar búi yfir nægilegri kunnáttu og þjálfun hvað varðar meðferð þeirra.

Lykilorð: Tannsmíði, tannheilsa, tannlækningar, fötlun, tannhirða.

Inngangur

Með hugtakinu fötlun er átt við langvarandi skerðingar sem hafa áhrif á daglegt líf fólks, meðal annars hefðbundnar athafnir og þátttöku á ýmsum sviðum samfélagsins (1). Fötlun getur bæði verið andleg og líkamleg og orsakir hennar margvíslegar; meðfæddar eða áunnar, afleiðing slysa og hinna ýmsu sjúkdóma. Fötlun getur verið mis­alvar­leg, allt frá því að vera ósýnileg öðrum og yfir í veru­lega skerðingu þar sem þörf er á sólarhringsaðstoð (2, 3). Flestir einstaklingar með fötlun eru í grunninn með jafnheilbrigðar tennur og aðrir. Tann- og munnsjúkdómar eru aftur á móti algengari í þeirra hópi af ýmsum ástæðum (4). Lyfjataka ber þar einna hæst, en sum lyf valda m.a. munnþurrki, sem eykur líkur á tannátu og sveppasýkingum, og auka líkur á tannhaldsbólgum. Tannhirða einstaklinga með fötlun er því sérstaklega mikilvæg, en getur á sama tíma verið mikil áskorun (5). Sumir einstaklingar með fötlun geta alfarið séð um tannhirðu sína sjálfir en algengara er að þeir þarfnist aðstoðar. Sem dæmi getur hreyfihömlun dregið úr líkamlegri getu til tannhirðu og þroskahömlun hindrað nauðsynlegan skilning á tengslum tannhirðu og tannheilbrigðis (6). Heilbrigði tanna skiptir ekki aðeins máli fyrir munnheilsu, heldur einnig fyrir almenna heilsu og vellíðan. Slæm tann- og munnheilsa getur þannig leitt af sér fjölda heilsufarsvandamála (7, 8).

Aðferðir

Rannsóknin var þversniðsrannsókn, byggð á megindlegri aðferðafræði. Þýði hennar samanstóð af öllum tannlæknum skráðum í Tannlæknafélag Íslands (TFÍ) og öllum tann­lækna­nemum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands (THÍ) vorið 2021. Mælitæki rannsóknarinnar var rafræn spurningakönnun þar sem viðhorf og þekking tannlækna og tannlæknanema til þjónustu við fatlaða einstaklinga var kannað. Könnunin var sett upp í forritinu Google Forms (Google, Mountain View, CA, US) og samanstóð af 17 spurningum. Flestar spurningarnar voru lokaðar, með fyrirfram ákveðnum svarmöguleikum á flokka-og raðkvarða. Fjórar spurningar höfðu hálfopið spurningaform þar sem þátttakendur gátu svarað með eigin orðum. Spurningalistinn var forprófaður af samnemendum höfundar og leiðbeinanda til að auka réttmæti og áreiðanleika. Þátttaka var með öllu nafnlaus og órekjanleg. Engin skilyrði voru sett fyrir þátttöku og í kynningarbréfi könnunarinnar var upplýst um að öllum gögnum yrði eytt að rannsókn lokinni. Gögn voru færð úr forritinu Google Forms yfir í Microsoft Excel (Microsoft Corp., Redmond, WA, US), auk SPSS (IBM, Armonk, NY, US), þar sem gögnin voru kóðuð, flokkuð og greind. Niðurstöður voru settar fram með lýsandi tölfræði og þeim lýst með tíðnidreifingu, meðaltölum, hlutfallareikningi, töflum og súluritum.

 

Niðurstöður

Svör bárust frá 100 einstaklingum, 25 tannlæknanemum (25,0%) og 75 starfandi tannlæknum (75,0%). Kynja­hlutfall var nokkuð jafnt meðal tannlækna, en 84,0% tannlæknanema voru kvenkyns, í samræmi við kynjadreifingu nema. Aldursdreifing var á breiðu bili en flestir í 18-29 ára hópi (n = 26; 26,0%), sem jafnframt var sá aldurhópur sem flestir (88,0%) tannlæknanemar féllu undir. Flestir tannlæknar voru hinsvegar í aldurshópnum 50-59 ára 

(n = 25; 33,3%).

Næstum allir tannlæknar, 97,3% (n = 73), sinntu fötluðum skjólstæðingum í starfi sínu. Aðeins einn svaraði því til að hann sinnti ekki einstaklingum með fötlun í starfi sínu en vísaði þeim til sérfræðings. Mynd 1 sýnir fjölda fatlaðra einstaklinga sem tannlæknar töldu sig sinna í starfi sínu. Rúmlega fimmtungur tannlækna (21,9%) taldi sig sinna einum til fimm skjólstæðingum með fötlun á ári, tæplega fjórðungur (24,7%) sex til ellefu á ári, 19,2% u.þ.b. einum í mánuði, 32,9% einum eða fleiri í viku og aðeins einn (1,4%) sinnti engum einstaklingi með fötlun í sínu starfi.

Aðeins 16,0% þáttakenda hafði fengið sérstaka þjálfun í meðhöndlun fatlaðra einstaklinga. Af þeim höfðu 31,3% fengið slíka þjálfun við Háskóla Íslands, önnur 31,3% á námskeiði, fjórðungur (25%) svarenda í sérhæfðu námi, 18,8% við háskóla erlendis og 12,6% annars staðar, s.s. á vinnustað. 

Tafla 1 sýnir mat tannlækna á eigin færni við meðhöndlun fatlaðra einstaklinga og hlutfallsdreifingu svörunar eftir kyni. Marktækt fleiri konur (n = 31; 81,6%) en karlar (n = 21; 58,3%) töldu færni sína fremur góða (z = 2,19, p = 0,029). Hlutfallslega fleiri karlar töldu sig hinsvegar búa yfir mjög góðri færni; 10 karlar (27,8%) samanborið við 4 konur (10,5%). Starfsaldur tannlækna virtist einnig skipta máli, en 68,2% (n = 45) tannlækna sem starfað höfðu við fagið í meira en 15 ár mátu færni sína góða, sem er mun hærra hlutfall en hjá þeim sem höfðu styttri starfsaldur.

Meirihluti svarenda, 88,0% (n = 88), var jákvæður fyrir því að bæta við áfanga í kennsluskrá Tannlæknadeild Háskóla Íslands þar sem kennd yrði nálgun við meðferð fatlaðra einstaklinga (Tafla 2). Aðeins 5,0% (n = 5) var neikvæður gagnvart þeirri hugmynd. Þeir sem voru neikvæðir gagnvart þeirri hugmynd voru tannlæknar á aldrinum 50 ára eða eldri og með starfsaldur yfir 15 ár.

Umræður

Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf og þekkingu tannlækna og tannlæknanema á Íslandi til þjónustu við fatlaða einstaklinga. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þeim finnist nám þeirra ekki hafa undirbúið þá nægilega vel undir meðferð og þjónustu við þennan hóp skjólstæðinga. Áhugi þátttakenda á að bæta úr því og þiggja frekari kennslu og þjálfun á því sviði virtist vera mikill, enda virðast allflestir tannlæknar sinna fötluðum einstaklingum í sínu starfi. 

Svarhlutfall rannsóknarinnar var 24,2%, þar sem starfandi tannlæknar voru mun fleiri en tannlæknanemar. Svarhlutfall var lakara en vonast var til, einkum meðal starfandi tannlækna, en ástæður þess geta verið ýmsar. Spurningalistanum var dreift með tölvupósti og ómögulegt að útiloka að einstaka tölvupóstföng hafi verið röng, að einhverja hafi vantað á uppgefna netfangalista eða að tölvupósturinn hafi lent í ruslsíum einstakra móttakenda. Slíkt virðist þó ekki hafa verið uppi á teningnum í tilfelli tannlæknanema, þar sem svarheimtur voru rúmlega 50%. Að auki var rannsóknin framkvæmd í miðjum heimsfaraldri COVID-19. Spurningakannanir sem tengdust beint eða óbeint því ástandi höfðu því verið umsvifamiklar og mögulegt að almenningur hafi verið orðinn þreyttur á svörun kannanna á borð við þessa rannsókn hér. 

Flestir tannlækna, 97,3%, sögðust sinna fötluðum einstaklingum í starfi sínu. Þrátt fyrir það höfðu aðeins 16,0% tannlækna fengið sérstaka þjálfun við slíka meðhöndlun. Athyglisvert þótti að 31,3% þeirra sem sagðist hafa fengið kennslu við meðhöndlun einstaklinga með fötlun, sagðist hafa fengið hana í HÍ. Það stangast á við þá staðreynd að mikill meirihluti svarenda sagðist ekki hafa fengið slíka kennslu í sínu námi, þrátt fyrir að hafa tekið grunnnám sitt í tannlækningum við HÍ. Mögulegt er að ástæður þess felist í mismunandi túlkun fólks á kennslu. Sumir gætu talið það kennslu þegar kennari nefnir einstök atriði tengd einstaklingum með fötlun á meðan aðrir telja það ekki nægilegt til að það geti fallið undir hugtakið „kennsla“. Einnig er mögulegt að kennslu viðfangsefnisins hafi verið mismunandi háttað við THÍ í gegnum tíðina, allt eftir áherslum á tilteknum tímum og eftir ólíkum kennsluháttum mismunandi kennara. Þeir þátttakendur sem töldu sig hafa fengið sérstaka þjálfun í meðhöndlun fatlaðra einstaklinga töldu færni sína oftar mjög góða (31,3%) samanborið við þá sem enga þjálfun höfðu fengið (10,7%). Sú staðreynd rennir stoðum undir þær vangaveltur hvort auka þurfi kennslu og þjálfun við meðhöndlun fatlaðra einstaklinga í tannlæknanámi.

Svörun í þessari rannsókn benti til þess að starfsaldur tannlækna hefði áhrif á svörun um eigin færni við meðhöndlun fatlaðra einstaklinga. Þeir sem töldu færni sína mjög góða voru flestir tannlæknar sem höfðu lengri starfsaldur en 15 ár. Mögulega má tengja það auknu sjálfstrausti með aukinni reynslu og þar með auknu öryggi við meðhöndlun og mat á eigin færni. Allflestir þátttakendur (93,0%) voru jákvæðir fyrir því að bæta við áfanga í fræðum um meðhöndlun fatlaðs fólks í kennsluskrá THÍ. 

Af svörum þátttakenda má ætla að tannlæknum og tannlæknanemum á Íslandi finnist nám þeirra ekki hafa undirbúið þá nægilega vel undir meðferð og þjónustu við fatlaða einstaklinga. Áhugi virðist vera fyrir umbótum, t.d. með viðbót námskeiða í kennsluskrá HÍ, enda virðast allflestir tannlæknar sinna fötluðum einstaklingum í sínu starfi. Slíkt gæti aukið færni íslenskra tannlækna til að sinna fyrrnefndum hópi skjólstæðinga, sem samkvæmt rannsóknum býr við almennt lakari tannheilsu en aðrir (8). Aukin kennsla á þessu sviði væri til góðs fyrir tannlækna sem og skjólstæðinga þeirra með fötlun. 

 

Heimildir

1. Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, L 38/2018, 1. gr. Lagasafn. Íslensk lög 13. apríl 2021. Útgáfa 151b.
2. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík. (2010). Þjónusta við fatlaða í Reykjavík. Sótt af https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/ssr_-_yfirfaersla_malefna_fatladra_lokautgafa.pdf
3. Lárusdóttir LM. Tannlæknaþjónusta fatlaðra einstaklinga. Sjónarhorn tannlækna og tannlæknanema. BS-ritgerð, THÍ, 2021.
4. Leal Rocha L, Vieira de Lima Saintrain M, Pimentel Gomes Fernandes Vieira-Meyer A. Access to dental public services by disabled persons. BMC oral health. 2015;15:35.
5. Bielfeldt S, Wilhelm D, Neumeister C, Schwantes U, Wilhelm KP. Effect of a newly developed pastille on the salivary flow rate in subjects with dry mouth symptoms: a randomized, controlled, monocentric clinical study. BMC oral health. 2021;21(1):117.
6. Wilson NJ, Lin Z, Villarosa A, Lewis P, Philip P, Sumar B, et al. Countering the poor oral health of people with intellectual and developmental disability: a scoping literature review. BMC public health. 2019;19(1):1530.
7. Johnson NW, Glick M, Mbuguye TN. (A2) Oral health and general health. Adv Dent Res. 2006;19(1):118-21.
8. World Health Organization. (2011). World Report on Disability. Sótt af https://www.who.int/disabilities/world_report/2011/report.pdf

ENGLISH SUMMARY

Dental services for people with disabilities

LÁRA MARÝ LÁRUSDÓTTIR, DENTAL TECHNICIAN, BS

EVA GUÐRÚN SVEINSDÓTTIR, DDS, MS, ASSISTANT PROFESSOR AND HEAD OF PEDIATRIC DENTISTRY, FACULTY OF ODONTOLOGY, UNIVERSITY OF ICELAND.

ICELANDIC DENT J 2021; 39(2): 37-41
doi: 10.33112/tann.39.2.4

Disabilities can be of various types and their causes are varied. The definition of disability is long-term impairments that affect people’s daily lives. Dental health is very important for the general health and well-being of all people, whether they are disabled or not. Disabled are most often born with equally good teeth as people without disabilities but dental and oral diseases are more common for them for various reasons. 

The main purpose of this research was to examine the perspective of dentists and dental students towards services for people with disabilities in Iceland. Also, to inquire whether the respondents were interested in further education and training in their profession regarding services of individuals with disabilities. 

Quantitative methodology was used with descriptive statistics. A convenience sample was used to select participants, which consisted of all dentists registered in The Icelandic Dental Association and all dental students studying dentistry at The Faculty of Odontology, University of Iceland. Data was collected and analysed with Microsoft Excel and SPSS and the results were presented in text, charts and with graphs. 

A total of 100 participants completed the questionnaire. More females , 59,0% (n = 59), participated than males , 41,0% (n = 41). Dentists were in the vast majority, 75,0% (n = 75), compared to dental students, 25,0% (n = 25). Majority of dentists, 97.3% (n = 73), treated individuals with disabilities , but only 16,0% had received special instruction in such treatment. Participants wanted more education and training in the treatment of the disabled 

The results indicate that teaching and training in dental services of people with disabilities is lacking in Iceland. Most dentists treat people with disabilities, some of whom have increased risk factors for dental health, and it is essential that dentists have adequate knowledge and instruction regarding their treatment. 

Keywords: Dental technology, oral health, dentistry, disability, oral hygiene. 

Correspondence: Lára Marý Lárusdóttir, e-mail: laramary1998@gmail.com

Scroll to Top