Líkfundarmálið í Neskaupstað 2004

SIGRÍÐUR RÓSA VÍÐISDÓTTIR, CAND. ODONT. MS. LEKTOR, TANNLÆKNADEILD HÁSKÓLA ÍSLANDS, RÉTTARTANNLÆKNIR, DVI, KENNSLANEFND RÍKISLÖREGLUSTJÓRA

SVEND RICHTER, CAND. ODONT. MS. DÓSENT EMERITUS, TANNLÆKNADEILD HÁSKÓLA ÍSLANDS, RÉTTARTANNLÆKNIR, DVI, KENNSLANEFND RÍKISLÖREGLUSTJÓRA 

 

NETFÖNG: srv2@hi.is, svend@hi.is
TANNLÆKNABLAÐIÐ 2022; 40(2): 8-17
doi:10.33112/tann.40.2.1

ÁGRIP

Í febrúar 2004 var kafari að störfum við bryggjukant á Neskaupstað. Á um 6 metra dýpi fann hann lík af manni innpakkað í tvo ruslapoka, hlekkjað niður með keðjum. Við skoðun lögreglu og læknis á staðnum komu í ljós áverkar sem bentu til morðs.

Við nánari rannsókn í Reykjavík kom í ljós að áverkarnir voru veittir eftir andlát (post mortem). Á röntgenmyndum komu í ljós framandi hlutir í kviðarholi. Grunur var um fíkniefnasmygl. Í MRI-SCAN komu í ljós 61 hylki sem reyndust innihalda amfetamín. Þau voru föst í maga og í efri hluta þarma. Hylkin voru gerð úr þremur lögum af latex og einu innsta lagi, plaströri hitabræddu við enda. Öll hylki reyndust heil og í blóði var ekki vottur af amfetamíni. Dánarorsök var ileus, mjógirnisstífla.

Rannsókn tanna var gerð á hefðbundinn hátt og niðurstöður skráðar á Interpol PM blöð. Til aldursgreiningar var notuð aðferð Kvaal et al. “Regression formulae for age in years based on dental radiographs from six teeth”. Rafrænar röntgenmyndir af tönnum 12, 11, 15, 44, 43 og 42 voru teknar og Trophy forritið notað til nauðsynlegra mælinga. Niðurstaða aldurgreiningar leiddi í ljós að einstaklingurinn var um það bil 32,2 ár með viðeigandi staðalfráviki.

Á þessu stigi hafði enginn horfið á svæðinu eða kom til greina og því engin AM gögn til samanburðar. Teikningar af hinum látna voru sendar fjölmiðlum. Fingraför hins látna fundust ekki í fingrafaraskrá hér á landi. Fingraför og upplýsingar um tennur voru m.a. send með Black Label leið Interpol og jákvæð niðurstaða fékkst frá Wiesbaden og síðar frá Vilnius að þau væru af rúmlega 30 ára einstakling frá Litháen. Við rannsókn málsins voru þrír menn handteknir. Hinir þrír grunuðu voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur í tveggja og hálfs árs fangelsi. Hæstaréttur staðfesti dóminn síðar.

Lykilorð: líkfundarmálið, fíkniefnasmygl, réttarvísindi 

Málavextir

Miðvikudaginn 11. febrúar 2004 hélt Þorgeir Jónsson vélvirki og kafari til vinnu sinnar. Honum hafði verið falið að að kanna skemmdir á netagerðarbryggju Friðriks Vilhjálmssonar í Neskaupskaupstað, en vikuna áður hafði togarinn Bjarni Ólafsson legið þar við bryggju í miklu óveðri. Í veðurofsanum hafði skipið rekist harkalega á bryggjuna og valdið þar skemmdum, (Mynd 1).

Mynd 1. 7. febrúar 2004. Togari laskaði bryggjuna í vonskuveðri.
Figure 1. February 7. 2004. A trawler damaged the pier in bad weather.

Veður hafði lægt og við köfunina notaði hann vatnshelda stafræna myndavél til að meta skemmdir á bryggjunni. Á bonti á um 6 metra dýpi fann hann lík af manni sem var pakkað inn í tvo svarta ruslapoka límda saman með svörtu límbandi. Kaðall var vafinn um háls, miðjan búk og fætur. Keðjuhönk var vafinn um háls og járnkúlur festar við fætur. Þorgeir kom upp á yfirborð og kallaði til lögreglu. Ákveðið var að nota netagrind til að ná líkinu upp. Þorgeir kafaði á ný og myndað vettvang, (Myndir 2), fjarlægði keðjur og járnkúlur, renndi líkinu í líkpoka og á grind sem hífð var upp, Mynd 3 (1).

Mynd 3. Hinum látna komið í land (3).
Figure 3. Deceased transportation ashore (3).

Frumlíkskoðun var gerð af lögreglu og lækni á Fjórðungs­sjúkrahúsinu á Neskaupsstað og var skýrt frá því á RUV að greinilega væri um morð að ræða þar sem fundist hafi bæði stungu- og skotsár á líkinu. 

Mynd 4. Mikil umfjöllun var í fjölmiðlum um málið (4). 
Figure 4. Extensive media coverage of the case (4).

Ekki var vitað hver hinn látni væri en talið var að um væri að ræða karl­mann á milli þrítugs og fer­tugs, lík­lega frá Suður-Evr­ópu. Eng­in skil­ríki fund­ust á lík­inu.

Líkið var vafið í plast og höfðu keðjur og járn­kúl­ur verið hlekkjaðar við það. 

Strax var haft sam­band við lög­regl­una í Reykja­vík og óskað aðstoðar henn­ar við rann-sókn­ina. Tíu manna hópur lögreglumanna, þar af 6 rannsóknarlögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra, undir stjórn sýslumannsins á Eskifirði, störfuðu fyrir austan, enda talið að morð hafi verið framið þar. Starfs­menn á veit­ingastaðnum Eg­ils­búð töldu sig geta borið kennsl af ljósmynd af hinum látna af manni sem var á barnum kvöldið áður. Teiknuð var andlitsmynd fyrir austan og birt í DV, (Mynd 5). 

Mynd 5. Teikning af hinum látna birt í fjölmiðlum (5) 
Figure 5. Drawing of the deceased published in the media (5).

Haft var samband við skip sem höfðu verið í höfn á Norðfirði. Ennig var gert manntal í Kárahnjúkavirkjun sem engu skilaði (6). Lögreglan í Noregi kom að rannsókn líkfundarins á Neskaupstað með því að yfirheyra áhöfn norsks fiskiskips við komu þess til Bodø í Norður-Noregi frá Íslandi. Fóru íslensk lögregluyfirvöld fram á það við norsku lögregluna á vettvangi Interpol-samstarfsins. 

Skipið lá við bryggju í Neskaupstað helgina áður en líkið fannst og kemur fram í netfréttum blaðsins VG (Verdens Gang), að íslensk lögregla telji að skipverjar sem brugðu sér á barinn í Egilsbúð á laugardagskvöldinu kunni að hafa hitt manninn þar og að hann kunni að vera norskur. „Við vonum að Norðmennirnir geti liðsinnt okkur í málinu. Kannski geta þeir borið kennsl á fórnarlambið. Við viljum sýna þeim mynd af manninum því þeir voru á barnum þar sem hann kann að hafa verið,“ hefur blaðamaður VG, sem staddur er í Neskaupstað, eftir Jónasi Vilhelmssyni yfirlögregluþjóni sem stýrir rannsókn líkfundarins (7, 8).

Líkið var flutt Reykjavíkur og tekið til rannsóknar af kennslanefnd ríkislögreglustjóra. Réttarkrufning fór fram á rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði. Höfundar ásamt öðrum í kennslanefnd unnu við rannsókn hins látna. Fljótt var ljóst að áverkar voru veittir eftir andlát (post mortem). Fyrir krufningu voru teknar röntgenmyndir og segulómsneiðmyndir, MRI. Grunur vaknaði um innvortis fíkniefni sem smygla ætti til landsins (Myndir 6 og7).

Fimm stungusár voru á líkinu. Voru þau öll veitt eftir dauða því engin merki sáust um blæðingu, hvorki í mjúk­vefjunum umhverfis hnífsstungurnar, né í lífhimnu, þind, magavegg eða mjógirnishengi, sem öll urðu fyrir áverka. 

Í maga og efri hluta þarma voru 61 hylki með samtals 223,67 grömmum af amfetamíni. Amfetamínhylkin reyndust vera svört plaströr, hitabrædd á endum. Utan um það voru 3 lög af latex hanskafingrum (Myndir 8 og 9). Öll hylkin voru heil og órofin og ekkert amfetamín var í blóði. Dánarorsök var staðfest sem ileus, sem er garnastífla í mjógirni (8).

Myndir 8. Öll hylkin voru órofin. Til hægri hefur hylki verið opnað. ABFO (American Board of Forensic Odontology) nr. 2 – bitfarakvarði notaður (9).

Figures 8. All capsules were intact. To the right, a capsule has been opened. ABFO No. 2 – Bitemark Scale used (9).

Fingraför hins látna fundust ekki í fingrafaraskrá hér á landi. Fingraför og upplýsingar um tennur voru þá send með Black Label leið Interpol (10), sem er vettvangur til að leita upplýsinga um óþekktan látinn mann og berst fyrirspurnin til 195 aðildarlanda. Atvinnuteiknari teiknaði andlitsmyndir af hinum látna eftir ljósmyndum teknum í réttarkrufningu sem birt var í fjölmiðlum, Myndir 10.

Mynd 10. Teikningar af andliti hins látna voru send fjölmiðlum.
Figure 10. Drawings of the deceased’s face were reliesed to the media.

 

Réttartannlæknisfræðileg rannsókn

Vert er að geta að á þessum tíma lá enginn grunur um hver hinn látni var, aðeins að sennilega var hér um að ræða erlendan mann sem grunaður var um að hafa ætlað að smygla eiturlyfjum til landsins sem burðardýr. Skráning tanna, röntgenmyndir og ljósmyndir teknar og færðar í skrán­ingar­kerfi PlassData (11). Unnið var eftir leiðbein­ingum DVI Interpol um auðkenningu látinna (12) og upplýsingar um hinn látna skráðar á eyðublöð 600 og 630 (13). 

Ákveðið var að áætla aldur hins látna af tönnum og nota aðferð Kvaal et al. (1995) (14). Eftir tvítugsaldur hafa allar tennur lokið þroskaferli en við taka hrörnunarbreytingar sem aukast með aldrinum. Nákvæmni þessarar aðferðar er ekki eins mikil eins og um aldurgreiningar sem byggja á þroskaferli tanna. Margar aðferðir eru í boði en aðferð Kvaal var valin þar sem hún krefst ekki úrdráttar eða eyðileggingu tanna, heldur byggir á röntgenrannsókn sex lykiltanna, mið- og hliðarframtanna og annars forjaxls í efri gómi og hliðarframtannar, augntannar og fyrsta forjaxls í neðri gómi (Myndir 13). Mælingar sem gerðar eru á hverri tönn má sjá á Mynd 12 og þær færðar í hrörnunarbreytingajöfnur sem reikna áætlaðan aldur, Tafla 1. 

Aðferð Kvaal virðist flókin með mörgum mælingum og útreikningum. Fram er komið reiknilíkan sem auðveldar alla útreikninga. Niðurstöður mælinga sýndi að miðgildi aldurs væri 32.2 ár.

 

Gögn réttarrannsóknar skila árangri 

Jákvætt svar við fingraförum barst frá Interpol Wiesbaden 19. febrúar að þau tilheyrðu Vaidas Vilkas, fæddur 20.11. 1977. Seinna sama dag fékkst jákvæð auðkenning frá Interpol Vilnius, sem sögðu förin vera af 30 ára Litháa, Vaidas Jucevius, fæddur 20.11. 1974. Vaidas Vilkas fannst ekki í þjóðskrá þar og því ljóst að Vaidas Jucevius hafði lagt fram fölsuð skilríki þegar hann komst í hendur lögreglu í Wiesbaden. Með svari lögreglu í Vilnius fylgdu með myndir af Vaidas (Myndir 14).

Myndir 14. Myndir af Vaidas Jucevius fengnar frá lögreglu í Vilnius, Litháen. 
Figures 14. Photos of Vaidas Jucevius obtained from police in Vilnius, Lithuania.

 

Nú fór að draga til tíðinda. Níu dögum eftir að líkið fannst voru þrír menn handteknir, Jónas Ingi Ragn­ars­son, Grétar Sig­urðs­son og Tomas Mala­kauskas en nöfn og myndir voru birtar í fjölmiðlum (Mynd 15). Allir neituðu sök í fyrstu en að því kom að Grétar játaði eftir nokkra daga í gæsluvarðhaldi og smám saman fór sakamálið að skýrast.

Mánu­dags­kvöldið 2. febr­úar 2004 kom Vai­das Jucevicius til Íslands frá Lit­há­en, með milli­lend­ingu í Kaup­manna­höfn. Inn­vortis var hann með 61 pakkn­ingu af metam-fetamíni, alls 223,67 grömm, sem hann hafði gleypt áður en hann lagði af stað. Í Leifsstöð ætl­uðu þrír menn: Jónas Ingi Ragnars­­son, Grétar Sig­urðs­son og Tomas Malakauskas, að taka á móti hon­um. Þeir höfðu skipu­lagt smygl fíkni­efn­anna ásamt eit­ur-lyfja­hring í Lit­háen í nokkurn tíma. Á eftirlitsmyndum úr Leifsstöð sást Vaidas og í komusal hélt Jónas á spjaldi með nafni Vai­dasar og nafni sínu, en þeir fóru samt á mis. Vai­das kom sér til Reykja­víkur og hitti þar menn­ina, sem óku honum heim til ákærða Tomasar í Furugrund 50 í Kópavogi. Skömmu síðar veikt­ist Vai­das heiftar­lega vegna þess að fíkni­efna­­pakkn­ing­arnar stífluðu mjó­girni hans og gengu ekki nið­ur. Reynt var að nota hægðarlyf og stólpípu úr apóteki og Contalgin til að lina þrautir, fengnu eftir ólöglegum leiðum. Fjórum dögum eftir að hann lenti í Kefla­vík var Vai­das lát­inn vegna þessa (8, 5).

Atburða­rásin þar á eftir er ævin­týra­leg. Einn mannanna stakk upp á því að fjar­lægja efnin úr líkinu en hinir tóku það ekki í mál. Mennirnir settu þá lík Vai­dasar í tvo svarta plastspoka, sem límdir voru saman með svörtu límbandi, vöfðu það í teppi og þeir Jónas Ingi og Tomas óku síðan með það austur á Djúpa­vog í jeppa sem þeir höfðu leigt. Þar urðu þeir veðurtepptir í tvo daga, með líkið í farangurshólfi. Ferð­inni var heitið á Neskaupstað, þaðan sem Grétar var ættaður. Hann flaug þangað sjálf­ur á undan félögunum. Þegar komið var til Neskaupstaðar var jörð frosin og engin leið að grafa líkið. Mennirnir ákváðu því að kasta því í sjóinn, en fyrst stungu þeir það fimm sinnum í þeirri von að líkið myndi sökkva, en til að vera öruggir var það fergjað með keðjum og járnkúlum. Þeir sögðust hafa kastað hnífnum af bryggjunni. Þremur dögum síðar var kaf­ari fyrir til­viljun við störf við bryggj­una þar sem Vai­das lá í votri gröf. Fyrir algjöra til­viljun fann hann lík­ið. Kafarar frá Landhelgisgæslu köfuðu og fundu hníf sem ekki er notaður við netagerð eða fiskverkun, en algengur meðal glæpamanna (Myndir 16 og 17) (2). 

Við rannsókn málsins kom í ljós að hinir grunuðu höfðu notað greiðslukort þannig að kaup þeirra á plastpokum, svörtu límbandi og teppi var allt skráð. Í bakaleið keyptu þeir hreinsiefni til að hreinsa upp blóð af parketgólfi í svefnherbergi þar sem Vaidas lést, en hann hafði kastað upp blóð fyrir andlát. Tæknideild lögreglu rannsakaði parketgólfið með Luminol, efni sem glóir í myrkri við snertingu við blóð, fyrirbæri sem nefnt er chemiluminescence. Luminol er virkasta efni í slíkum rannsóknum, aðeins þarf nanó­grömm blóðs til að það greinist. Í luminol lausn er bæði luminol (C8H7N3O2) og vetnisperoxíð (H2O2). Við hvarf vetnis­peroxíðs og járns í blóði afoxast súrefni sem hvarfast við luminol og orka og ljós myndast. Luminol er úðað yfir vettvang og við það finnast blóðleifar á flötum sem taldir voru fullhreinsaðir (16).

Blóð leyndist í rifum parkets og undir gólflistum. Parket og listar voru haldlagðir og sýni send erlends í DNA greiningu. Blóðið reyndist vera úr Vaidas (Mynd 19) (2, 8, 15).

Mynd 16. Kafarar Landhelgisgæslunnar kafa í leit að hníf sem notaður var. 
Figure 16. Divers from the Coastguard in search of a knife that was used.

Mynd 17. Hnífur sem talið er að hafa verið notaður fannst við köfun Gæslunnar í kastlengd frá bryggju. 
Figure 17. Knife suspected to be used was found by divers from the Coastguard within a throwing length from the pier.

 

Mynd 18. Límband á ruslapokum og blóðblettur greindur með DNA úr hinum látna í bíl eins hinna grunuðu svo og önnur gögn hröðuðu rannsókn málsins.
Figure 18. Tape on the plastic bag, blood spots found in one of the suspect‘s cars analyzed by DNA belonging to the body and other evidence helped to speed up the investigation.

 

Mynd 19. Parket var haldlagt og sýni send í DNA greiningu.
Figure 19. Parquet was confiscated and samples sent for DNA analysis.

 

Auðkenning manna í réttarrannsókn

Samkvæmt aðferðafræði Interpol á auðkenningu manna á hún að vera vísindalega traust, áreiðanleg og að unnt sé að koma henni til framkvæmdar innan hæfilegs tíma. Aðal og áreiðanlegasta leiðin til auðkenningar (primary identifiers) eru fingraför, tannlæknisfræðileg greining og DNA. Hver þessara þriggja aðferða getur staðið ein og sér til að staðfesta auðkenningu. Einstök raðnúmer frá lækningaígræðslum geta einnig verið áreiðanleg auðkenni. Auka auðkenningaraðferðir (secondary identifiers) eru persónulýsing, læknisfræðilegar niðurstöður, húðflúr, skartgripir og fatnaður sem finnst á hinum látna. Einnig laus persónuskilríki, en hafa ber í huga að þeim er hægt að koma fyrir í glæpsamlegum tilgangi. Þessar auðkenningarleiðir geta þjónað sem stuðningur við önnur sönnunargögn en geta venjulega ekki staðfest auðkenni ein og sér. Auðkenning byggð á ljósmyndum getur verið óáreiðanleg og ætti að forðast sem eina úrræði. Sjónræn auðkenning vitnis getur gefið vísbendingu um deili en er ekki nægjanlegt til að bera kennsl á fórnarlömb slysa því sjónrænn samanburður er óáreiðanlegur að mati sérfræðinga Interpol. Sálræn streita getur skipt máli í slíkum málum (13,17,18). Til að undirstrika breytingar sem verða fljótt við dauða manns eru hér bornar saman myndir sem teiknaðar voru af hinum látna og nýlegar myndir af honum meðan hann var á lífi. Af tillitssemi eru ekki birtar andlitsmyndir af líkinu, aðeins teikningar, (Myndir 20). Mynd lengst til vinstri er klippt úr mynd af Vaidas sem tekin var í eftirlitsmyndavél í Leifsstöð við komu hans til landsins. Höfundar staðfesta að teiknuð mynd lengst til hægri nær útliti andlits hins látna mjög vel. Myndirnar undirstrika hvað sjónræn auðkenning vitnis er óáreiðanleg.

Myndir 20. Sami maðurinn?
Figure 20. Is it the same man?

 

Dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur

Kveðinn var upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. nóvember 2004. Fram kom í dómnum að ákærði Tomas hafi útvegað fíkniefnin í Litháen en hann var í sambandi við rússnesk-litháískan mafíuhóp og fékk Vaidas til verksins, en efnið ætluðu ákærðu til sölu hér á landi og hugðist ákærði Grétar annast söludreifingu. Jónas hafði haft milligöngu með peningasendingar í þessum viðskiptum (8).

Fram kemur að „Dánarorsök Vaidas Jucevicius er mjógirnis­stífla af völdum fíkniefnapakkninga og fylgikvillar hennar. Samverkandi þáttur eru miklir samvextir í kviðarholi“. Í vitnisburði Þóru Steffensen, réttarmeinafræðingi kemur fram:

„Dæmigerður sjúkdómsgangur við stíflu í fjærhluta mjógirnis eru mjög sárir, kveisukenndir verkir í kvið, sem a.m.k. til að byrja með koma með endurteknu millibili. Er lengra líður í ferlinu verða verkirnir oft stöðugri og þungir. Þessu fylgir síðan þan á kvið og endurtekin uppköst, sem oft eru ekki mikil að magni í hvert skipti. Stíflaða görnin safnar í sig síauknum vökva ofan stíflunnar og þenst út. Eftir að uppköst hefjast er sama útlit á vökvanum í maga og fjær í mjógirninu. Þessi mikla vökvasöfnun í görnina leiðir til truflana á vökvajafnvægi líkamans. Vökvinn úr blóðrásinni leitar út í görnina, blóðþrýstingur lækkar og hvort tveggja leiðir til nýrnabilunar og blóðsaltatruflana og endanlega til losts. Hækkun á niðurbrotsefnum nýrna sýnir hins vegar svo ekki verður um villst að Vaidas var kominn í nýrnabilun er hann dó“ (8). 

Á tímabili var ljóst að Vaidas þyrfti að komast undir læknishendur. Ekki var tekin áhætta á að leita bráðaþjónustu hér. Farmiða hans var breytt og búið var að útvega lækni ytra. Á leið til Keflavíkur varð Vaidas fárveikur og ljóst að hann væri ófær í flugið. Í Furugrund var hann studdur inn. Þar mættu þeir nágranna í húsinu og gáfu þá skýringu að áfengi ætti ekki samleið með öllum (8).

Vaidas féll úr rúmi, lá í blóðpolli og reyndist látinn. Þegar Tomas hafði rætt við sitt fólk ytra tilkynnti hann að honum hafi verið sagt að hann yrði að sjá um þetta og skildi ákærði hvað það þýddi, þ. e. að líf þeirra væri að veði. Hafi Tomas sagt að það yrði að koma manninum fyrir einhvers staðar. Hafi hann ámálgað það að fjarlægja efnin úr líkinu en hinir tveir reynst því mótfallnir (8). 

Í byggingavöruverslun, keyptu þeir teppi, poka, límband, snæri og fleira sem þeir pökkuðu líkinu í og báru í jeppa sem þeir höfðu tekið á leigu. Grétar kvaddi og sagðist ætla til Neskaupstaðar til móður sinnar. Þegar Tomas og Jónas mættu þar með líkið aftur í bættist Grétar í hópinn. Hefðu þeir ekið um til þess að sjá út heppilegan stað. Að endingu hefði verið ákveðið að sökkva líkinu í höfnina við Netagerðina, enda hafi þar verið allt sem til þurfti, sökkur, snæri og hvað eina. Hefðu þeir þrír farið þangað um miðnætti. Þar hefðu þeir tekið líkið út og velt því úr teppinu. Grétar festi við það keðju og skoppara, sem þarna voru, til þess að sökkva líkinu. Hann hefði fengið skeiðarhníf hjá Tomasi og stungið í líkið til þess að ekki myndaðist í því loft. Hnífnum hefði hann svo hent í höfnina. Hann hefði svo tekið um axlir á líkinu en Jónas Ingi um fæturna og þeir hent því í sjóinn (8).

Í dómsorði héraðsdóms segir að „ákærðu, Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Tomas Malakauskas, sæti hver um sig fangelsi í tvö ár og sex mánuði“. Var dómurinn fyrst og fremst byggður á innflutningi fíkniefna, fyrir að koma Vai­dasi ekki til aðstoðar í neyð og fyrir illa með­ferð á lík­inu sæti hver um sig fangelsi í tvö ár og sex mánuði“ (8). Dómur héraðsdóms var staðfestur í hæstarétti 28. apríl 2005. 

 

Eftirmáli

Tomas Malakauskas, fékk reynslulausn þegar hann átti 14 mánuði eftir af fangelsisdómnum í líkfundarmálinu og var vísað úr landi með 10 ára endurkomubann hingað til lands. Hann rauf þessa reynslulausn sína með því að koma hingað til lands árið 2007, auk þess að hafa í fórum sínum amfetamín og var dæmdur í 16 mánaða fangelsi, sem bættust við þá 14 mánuði sem hann átti eftir af fyrri dómi (19). 

Jónas komst aftur í frétt­irnar árið 2010 þegar hann var dæmdur í tíu ára fang­elsi fyrir að setja upp í sam­starfi við aðra eina full­komn­ustu amfetamín­verk­smiðju sem fund­ist hefur hér­ á landi (15).

Grétar sneri blaðinu við eftir afplánun og stóð í margs­konar rekstri. Hann var opinskár um fortíð sína og steig fram í nokkrum viðtölum varðandi þá sjálfsvinnu sem hann fór í gegnum í áttina að betra lífi og ekki síst baráttu við að halda sér edrú, en hann var afar virkur innan AA-samtakanna. Synir hans urðu fyrir áreiti vegna hluts Grétars í líkfundarmálinu og flutti hann því ásamt fjölskyldu til Spánar þar sem hann bjó síðari ár. Hann féll frá í júlí síðastliðinn, 45 ára að aldri (21, 22).

Árið 2018 var gerð kvikmynd, Undir halastjörnu sem byggir á líkfundarmálinu ( Mynd 21). Biblíusagan af Júdasi er endursögð út frá raunverulegum atburðum á Íslandi árið 2004. Við kynnumst þremur æskuvinum í Eistlandi þegar heimaland þeirra er að losna undan Sovétríkjunum. Fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði þeirra er Ísland. Ísland verður tákn um von og framtíð. Tuttugu árum seinna heldur sagan áfram. Einn þeirra hefur flutt til Íslands og sagt öðrum frá möguleikum sem þar bjóðast og fær hann til að flytja amfetamín til Tallinn og fá greitt fyrir frá spilltum presti. Í stað þess að fá greitt er hann neyddur til að gleypa 70 hylki af eiturlyfjum og fara með til Íslands. Á Íslandi taka á móti honum landi hans og félagar. Á næstu dögum kemur í ljós að lyfin skila sér ekki og deyr hann að lokum í óráði og sárþjáður. Dauði hans veldur hinum miklum vandræðum. Þeir pakka líkinu í jeppa og halda í martraðarkennda ferð gegnum vetrarmyrkrið til Neskaupsstaðar. Saman losa þeir sig við líkið út í ískalt Atlantshafið (23).

 

Athugasemdir höfunda

Margar ljósmyndir í greininni eru eign höfunda og tækni­deildar LRH. Flestar þeirra hafa birtst áður opinberlega og því ekki óskað sérstaks leyfis til birtingar. Einnig eru myndir sem birst hafa í fjölmiðlum sem vísað er í.

Heimildir

1. Magnússon SI. Líkfundarmálið. Norræn sakamál 2007. Saga Egmont.
2. Purkur, Herkill. Líkfundarmálið. Sönn íslensk sakamál. Líkfundarmálið. Framleiðandi Purkur og Herkill fyrir Skjá EINN 2012. 
3. Fréttablaðið. Morðrannsókn eftir líkfund í Neskaupsstað. Birt 12.02.2004. Torg ehf.
4. DV. Hefurðu séð þennan mann. DV – Frjáls og óháður miðill. Birt 14.02.2004. Torg ehf.
5. Morgunblaðið. Járnkúlur festar við lík sem fannst í Norðfjarðarhöfn. Birt 12.2.2004. Árvakur. 
7. mbl.is. 15.02.2004. 10 manna hópur vinnur að rannsókninni í Neskaupstað. Birt 15.22004. Árvakur. 
8. Héraðsdómur. Dómur í sakamálinu nr. 1177/2004. Hérðsdómur Reykjavíkur.
9. American Board of ForensicOdontology. ABFO No. 2 – Bitemark Scale. 
10. Interpol. Black Notice. https://www.interpol.int/en/How-we-work/Notices/About-Notices.
11. PlassData. KMD PlassData DVI Disaster Victim Identification software, integrated with the INTERPOL DVI forms. https://wwwkmdnet/solutions-and-services/data-and-ai/kmd-plassdata-dvi. 
12. Interpol. Disaster Victim Identification Guide. International Criminal Police Organization (Interpol). 1998:1-106. 
13. Interpol. INTERPOL DVI Form – Unidentified Human Remains.
14. Kvaal SI, Kolltveit KM, Thomsen IO, Solheim T. Age estimation of adults from dental radiographs. Forensic science international. 1995;74(3):175-85.
15. Kjarninn. Fimm íslensk glæpamál sem yrðu frábærar kvikmyndir. Birt14.10.2016. 
16. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-514/2014 uppkveðinn 9.12.2015.
17. Da Silva RR AB, da Silva ALL, Frigeri HR. Luminol in forensic science. J Biotechnol. 2012;3(4):172-77. file:///C:/Users/Svend/AppData/Local/Temp/MicrosoftEdgeDownloads/
82ab4400-4777-4183-8daf-e80488845fb2/18Y1344%20E%20DVI_Guidepdf.
19. ADA. Body identification guidelines. American Board of Forensic Odontology, Inc. J Am Dent Assoc 1994;125:1244-54.
20. IOFOS. Quality assurance. http://www.odont.uio.no/foreninger/iofos/quality/quality_assuarance.htm.
21. Dómur Hæstaréttar. Mál nr. 510/2004 kveðinn upp 28. apríl 2005. https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=5c689d30-de08-476f-a007-015b377fcd79#
22. visir.is. Malakauskas fékk 16 mánaða fangelsisdóm. 07.12. 2007. Vísir ehf.
23. Gestsdóttir R. „Ég er enginn engill og verð aldrei hvítþveginn“. DV – Frjáls og óháður miðill. Birt 22102018. Torg ehf.
24. Ritsjórn DV. Grétar Sigurðarson fallinn frá. DV – Frjáls og óháður miðill. Birt 16.07.2022 Torg ehf
25. Kvikmyndavefurinn. Undir halastjörnu. Frumsýnd 12.10.2018. Leikstjóri og handrit: Ari Alexander Ergis Magnússon.

ENGLISH SUMMARY

The 2004 Neskaupstaður case

SIGRIDUR ROSA VIDISDOTTIR, DDS, MSC, ASSISTANT PROFESSOR FACULTY OF ODONTOLOGY, UNIVERSITY OF ICELAND. FORENSIC ODONTOLOGIST, DISASTER VICTIM IDENTIFICATION, NATIONAL COMMISSIONER OF POLICE

SVEND RICHTER, DDS, MSC, ASSOCIATE PROFESSOR EMERITUS FACULTY OF ODONTOLOGY, UNIVERSITY OF ICELAND. FORENSIC ODONTOLOGIST, DISASTER VICTIM IDENTIFICATION, NATIONAL COMMISSIONER OF POLICE

Icelandic dent J 2022; 40(2): 8-17
doi: 10.33112/tann.40.2.1

On February 7, 2004, a diver was  doing a damage work to a pier in Neskaupstaður. At a depth of 6 m he found the body of a man chained down. An examination by the police and a doctor on the hospital revealed injuries that indicated a murder.

During further investigation in Reykjavík, it was found that the injuries were inflicted postmortem. Radiographs and MRI revealed foreign objects in the abdominal cavity. Drug trafficking was suspected. In the MRI-scan, many capsules were seen. 61 capsules of amphetamine were found in the stomach and upper part of the intestines. The capsules were made of three layers of latex and one innermost layer, a plastic tube heat-melted to the end. All capsules were found to be intact and there was no trace of amphetamine in the blood. Cause of death was ileus, small bowel obstruction.

Dental examination was done in the usual way and results were recorded in PlassData on Interpol PM Forms. For age estimation, the method of Kvaal et al. was used, “Regression formulas for age in years based on dental radiographs from six teeth”. Digital radiographs of teeth 12, 11, 15, 44, 43, 42 were taken by the Trophy RVG digital x-ray sensor and the software used for the necessary measurements. The result was 32.2 years with an appropriate standard deviation.

At this stage no one was missing in the area or considered, so there was no AM data for comparison. Drawings of the deceased were sent to the media. The fingerprints of the deceased were not found in the fingerprint register in Iceland. The fingerprints and dental data were sent via Interpol’s Black Label route and a positive result was obtained from Wiesbaden and later from Vilnius that they were from approx. 30 years old Lithuanian. Three men were arrested. The evidence piled up until the whole picture emerged. Three men were arrested and were sentenced in Reykjavík District Court to two and a half years in prison. The Supreme Court confirmed the verdict.

Keywords: The Neskaustaður case; drug trafficking; forensic sciences 
Correspondence: Sigríður Rósa Viðisdóttir – srv2@hi.is, Svend Richter – svend@hi.is

Scroll to Top